Almennt - Rekstrarleyfi
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála annast útgáfu rekstarleyfa til einkaaðila sem hyggjast veita þjónustu sem lýtur eftirliti stofnunarinnar skv. II. kafla laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála nr. 88/2021. Stofnunin skal veita þeim umsækjendum rekstrarleyfi sem sýna fram á að geta veitt þjónustu sem er örugg og í samræmi við gæðaviðmið og ákvæði laga, reglugerða, reglna, samninga og leiðbeininga.
Umsókn
Umsókn um rekstrarleyfi skal vera skrifleg og skulu henni fylgja þau gögn sem Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála gerir kröfu um. Heimilt er að hafna umsókn á þeim grundvelli einum að tilskilin gögn hafi ekki borist. Áður skal umsækjanda þó leiðbeint um kröfur til framlagningar gagna. Sótt er um rekstrarleyfi á “Mínum síðum”.
Útgáfa rekstrarleyfis
Rekstrarleyfi skal gefið út til ákveðins tíma, þó ekki lengur en til fimm ára. Heimilt er að binda rekstrarleyfi skilyrðum sem að mati Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála eru til þess fallin að tryggja öryggi og gæði rekstrarleyfisskyldrar þjónustu og að þjónustan uppfylli gæðaviðmið og ákvæði laga, reglugerða, reglna, samninga og leiðbeininga, m.a. um þá þjónustu sem fyrirhugað er að veita, húsnæði, aðbúnað, starfsmannaþörf, hæfi starfsfólks, fjármögnun og aðra fjárhagslega þætti og fyrirkomulag innra eftirlits auk skilyrða um upplýsingagjöf til stjórnvalda.
Stofnuninni er heimilt að veita umsækjanda rekstrarleyfi til bráðabirgða á meðan umsókn er til meðferðar hjá henni. Við mat á því hvort veita eigi tímabundið leyfi skal stofnunin m.a. líta til hagsmuna notenda og hvort líklegt sé að umsókn um rekstrarleyfi verði samþykkt.
Endurnýjun rekstrarleyfis
Rekstrarleyfishafi sem óskar að halda áfram starfsemi skal senda Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála umsókn um endurnýjun leyfis áður en rekstrarleyfi rennur út. Umsækjandi um endurnýjun rekstrarleyfis skal í umsókn gera grein fyrir atriðum sem kunna að hafa breyst frá því að leyfi var síðast veitt. Endurnýjað rekstrarleyfi skal gefið út til ákveðins tíma, þó ekki lengur en til fimm ára.
